Gekk beint í flasið á Karl og Susan Kennedy

Anna Dóra ásamt áströlsku sjónvarpsstjörnunum Jackie Woodburne og Alan Fletcher. Ljósmynd/Úr einkasafni

Gamall draumur rættist óvænt hjá Selfyssingnum Önnu Dóru Ágústsdóttur í gærmorgun þegar hún var í gönguferð í Melbourne í Ástralíu og gekk beint í flasið á hjónunum Karl og Susan Kennedy úr sápuóperunni Nágrönnum.

Anna Dóra hefur verið í sumarfríi í Ástralíu síðustu daga ásamt manni sínum, Jóni Karli Jónssyni. Í gærmorgun ákváðu þau að fara í gönguferð meðfram Maribyrnong River í Melbourne.

„Þessa gönguferð verður seint hægt að toppa. Við vorum komin nokkuð áleiðis þegar við vorum stoppuð á göngustígnum vegna þess að þar var verið að taka upp sjónvarpsþátt. Okkur var sagt að þarna væri verið að taka upp atriði fyrir Nágranna og að gamlir félagar væru að koma fram,“ segir Anna Dóra í samtali við sunnlenska.is.

„Þegar við fengum svo að labba í gegn sá ég hverjir þetta voru og með stjörnur í augum fékk ég mynd af mér með Jackie Woodburne og Alan Fletcher, sem leika Susan og Karl Kennedy. Þau voru mjög til í það þegar ég sagði að ég væri frá Íslandi. Alan vissi ýmislegt um land og þjóð enda hefur hann komið tvisvar til Íslands. Hann vissi líka að hálf íslenska þjóðin horfir á Nágranna,“ segir Anna Dóra.

Óhætt er að segja að Nágrannar, sem hófu göngu sína árið 1985, hafi verið eitt vinsælasta sjónvarpsefnið á Íslandi síðustu áratugina.

„Þetta var skemmtileg tilviljun og eitthvað sem mér datt alls ekki í hug því þessi staðsetning er ekki neitt í líkingu við Ramsey Street. Það var mjög skemmtilegt að hitta þau og sjá þetta fólk sem maður ólst upp með á skjánum alveg frá því að þeir byrjuðu. Þessi morgunganga var dásamleg og eftir þetta atvik voru allir 16,5 kílómetrarnir meðfram ánni auðveldir,“ segir Anna Dóra kát að lokum.

Anna Dóra í góðum félagsskap Susan og Karl Kennedy. Ljósmynd/Úr einkasafni
Fyrri greinLentu tvisvar undir en komu til baka
Næsta greinCarbfix hefur rannsóknarboranir í Ölfusi