Geir Sveinsson ráðinn bæjarstjóri í Hveragerði

Geir Sveinsson. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Geir Sveinsson er næsti bæjarstjóri Hveragerðisbæjar en meirihluti bæjarstjórnar mun leggja fram tillögu um það á næsta bæjarstjórnarfundi. Geir mun hefja störf í upphafi ágústmánaðar.

Geir er fæddur 1964 og hefur verið sjálfstætt starfandi síðustu tvö ár. Hann er með MBA próf frá Háskóla Íslands auk menntunar í markaðssetningu á netinu og meistaragráðu í þjálfun. Geir er Íslendingum flestum kunnur sem einn af sterkustu landsliðsmönnum Íslands í handbolta en hann þjálfaði íslenska landsliðið um tíma og hefur sinnt þjálfun og stjórnun í Þýskalandi síðustu ár.

„Auk menntunar og reynslu Geirs er hann öflugur leiðtogi og hefur farsæla reynslu af því að vinna með fólki. Það er ekki síst sá hæfileiki sem við leituðumst eftir í fari bæjarstjóra. Við erum full tilhlökkunar vegna komandi verkefna og samstarfs og bjóðum Geir og fjölskyldu velkomin í Hveragerði,“ segir Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar.

Sandra Sigurðardóttir, formaður bæjarráðs, segir að valið hafi verið erfitt enda margar umsóknir mjög góðar. Alls sóttu 23 um stöðu bæjarstjóra en 4 drógu umsókn sína til baka.

„Við erum afskaplega ánægð með ráðninguna. Að öllum umsækjendum ólöstuðum þá hefur Geir þá kosti sem við leituðum að í fari bæjarstjóra. Geir hefur sýnt það og sannað að hann er leiðtogi, markmiðadrifinn en umfram allt hefur hann sterka sýn og mikinn metnað. Við erum ákaflega spennt að takast á við verkefnin sem bíða okkar með Geir í brúnni,“ segir Sandra.

Sjálfur segist Geir vera þakklátur fyrir traustið sem honum er sýnt.

„Ég er nýjum meirihluta Hveragerðisbæjar mjög þakklátur fyrir það traust og tækifæri sem mér hefur verið sýnt. Ég mun í góðu samstarfi við alla bæjarfulltrúa og starfsfólk Hveragerðisbæjar leggja mig allan fram við að gera góðan bæ enn betri. Tækifærin eru fjölmörg og spennandi tímar framundan í ört vaxandi og kraftmiklu sveitarfélagi sem Hveragerðisbær er,“ segir Geir Sveinsson, verðandi bæjarstjóri í Hveragerði.

Ráðningarsamningur við Geir tekur formlega gildi þegar hann hefur verið staðfestur af næsta bæjarráðsfundi og birtur opinberlega í kjölfarið.

Fyrri greinAlvöru samkomuhús í hjarta bæjarins
Næsta greinKaldlynt kvöld úti á Nesi