„Gefur félaginu byr undir báða vængi“

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu og Elías Örn Einarsson, þjónustu og öryggisstjóri Set, undirrituðu samninginn. Ljósmynd/Gunnar Páll Pálsson

Set ehf á Selfossi hefur gert samstarfssamning við Krabbameinsfélag Árnessýslu en Set mun styðja félagið með mánaðarlegu framlagi næstu þrjú árin.

Samningurinn var undirritaður í síðustu viku og segir Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, að hann sé mikilvægur á margan hátt.

„Meðal annars vegna þess að það gefur félaginu byr undir báða vængi að finna svo öflugan stuðning frá sínu nærsamfélagi, eflir okkur áfram til góðra verka og eykur tækifæri til að efla þjónustuna enn betur. Starfsemi félagsins er eingöngu rekin af styrkjum og framlögum félaga, fyrirtækja og félagsamtaka, og hefur það eitt að markmiði að styðja við krabbameinsgreind og aðstandendur þeirra með eins fjölbreyttum hætti og hægt er. Öll þjónusta félagsins er þátttakendum að kostnaðarlausu og það er eingöngu hægt vegna öflugra stuðningsaðila eins og Set,“ sagði Svanhildur í samtali við sunnlenska.is.

Bergsteinn Einarsson, forstjóri Set, segir að styrkur sem þessi sé nýlunda hjá fyrirtækinu í stuðningi við velferðarfélög. „Nú er þetta orðið að veruleika og við erum afskaplega stolt af samstarfinu og vonum að það verði félaginu til góðs,“ segir Bergsveinn.

Fyrri greinBókun í bæjarráði undir fundargerð Fræðslunefndar
Næsta grein„Uppbyggingin á Selfossi algjörlega stórkostleg“