Gefur 90 sekúndulítra af 85°C heitu vatni

Ætlað er að ný borhola sem Sveitarfélagið Árborg hefur látið bora í landi Stóra-Ármóts í Flóa gefi um 90 sekúndulítra af 85 gráðu heitu vatni.

Um tuttugu milljónir króna sparast við framkvæmdina þar sem bora þurfti 500 metrum styttra eftir vatninu en áætlað var.

Heildarkostnaður er líkast til um 100 milljónir króna að mati Gunnars Egilssonar formanns veitustjórnar. Bormenn hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða hófu framkvæmdir í við holuna í lok júlí og alls var borað um 1500 metra eftir vatninu með fyrrgreindum árangri.

Til verksins var notaður borinn Nasi sem er í eigu Ræktunarsambandsins. Vatni úr holunni verður bætt inn á veitukerfi en ráðist var í framkvæmdina þar sem skortur þykir vera á heitu vatni sveitarfélaginu á álagstímum.

Keypt verður ný dæla og henni komið fyrir í nýlegu dæluhúsi á svæðinu. Ætlað er að hún verði tekin í notkun næsta sumar en vatnið er leitt um þrjá kílómetra að Selfossi.

Fyrri greinJohnson fór á kostum gegn Grindavík
Næsta greinKærum vegna þjófnaðar úr verslunum fjölgar