Gefa hundrað tonn af kjötmjöli

Stjórn Orkugerðarinnar, sem rekur kjötmjölsverksmiðjuna í Flóahreppi hefur ákveðið að gefa bændum hundrað tonn af kjötmjöli til áburðarnota í kynningarskyni.

Nota verður kjötmjölið fyrir 1. nóvember næstkomandi. Kjötmjölið er selt sem áburðarmjöl til uppgræðslu og sem áburður. Það hefur reynst ákaflega vel sem áburður í þeim tilfellum sem hæg losun áburðarefna er æskileg. Þetta gildir um landgræðslu, skógrækt, golfvelli og endurvinnslu túna.

Í tilkynningu stjórnar félagsins segir að strangar reglur gildi um notkun á kjötmjöli. Það megi einungis nota á land sem nota á til fóðurgerðar ef notkunin er fyrir 1. nóvember ár hvert og landið skal friðað fyrir beit til 1. apríl á eftir. Verða kaupendur að undirrita skuldbindingu um að fylgja þessum reglum.

Þá er tekið fram að geyma skuli mjölið þannig að ekki sé hætta á að skepnur komist í það. Í mjölið er blandað áburðarkalki til að það nýtist ekki sem fóður, segir jafnframt í tilkynningunni.

Mjölið, sem verður gefið er afhent við dyr verksmiðjunnar og er hámarksmagn tíu tonn á hvern aðila.

Eigendur Orkugerðarinnar eru Sláturfélag Suðurlands, Sláturhúsið á Hellu, Reykjagarður, Sorpstöð Suðurlands og Ísfugl.

Fyrri greinStrákarnir okkar: Viðar og Guðmundur skoruðu
Næsta greinNýr Herjólfur kominn í hönnunarferli