Gefa fólki kost á að kynnast starfseminni í húsinu

Í vetur munu Fjölheimar á Selfossi bjóða upp á hádegisuppákomur síðasta fimmtudag í mánuði. Fyrsta hádegisuppákoman verður 25. september næstkomandi.

Þá mun Bjarni Harðarson, bóksali, halda erindi sem ber yfirskriftina „Víst geta tanaðir selfysskir hnakkar og smínkaðar skinkur búið til bókabæ!“

Hrafnkell Guðnason, verkefnastjóri Háskólafélags Suðurlands, segist fastlega búast við góðu erindi Bjarna. „Það verður bæði fróðlegt og klárlega skemmtilegt. Í erindinu mun Bjarni fara yfir þær hugmyndir sem uppi eru um að gera Selfoss að bókabæ. Það kemur svo í ljós hvað í því felst.“

Að sögn Hrafnkels er tilgangurinn með hádegisuppákomunum í vetur að opna Fjölheima meira fyrir almenningi. „Þrátt fyrir að hér komi mikill fjöldi fólks daglega sem nýtir sér þá þjónustu sem er í boði þá langar okkur að fá fleiri hingað inn svo fólk geti séð húsið, kynnst starfseminni hér og okkur sem hér störfum.“

„Við mun um fá til okkar ýmsa aðila til að fjalla um skemmtileg málefni auk þess sem boðið verður upp á matarmikla súpu á vægu verði. Það er ekki endanlega búið að ákveða hverjir koma til með að flytja næstu erindi en það verða klárlega málefni sem snerta og eru áhugaverð fyrir íbúa á svæðinu,“ segir Hrafnkell og bætir því við hádegisuppákomurnar séu fyrir alla sem hafa áhuga. „Við vonumst bara til að sjá sem flesta,“ segir Hrafnkell hress að lokum.

Fyrri greinJeppaferð með Suðurlandsdeild f4x4
Næsta greinFundað um atvinnumál í Hveragerði