Gefa allan aðgangseyrinn til Suðra

Í júlí og um verslunarmannahelgina mun allur aðgangseyrir að völundarhúsinu á garðyrkjustöðinni Engi í Bláskógabyggð renna til Suðra, íþróttafélags fatlaðra á Suðurlandi.

„Við viljum koma þakklæti til félagsins fyrir að styðja son okkar og gefa fötluðum á Selfossi tækifæri til að stunda margskonar íþróttir,“ segir Sigrún Reynisdóttir, annar eigenda Lífræna markaðins á Engi.

Suðri er íþróttafélag fatlaðra á Suðurlandi og iðkendur eru með ýmis konar fötlun. Meðal íþrótta sem Suðrafólk hefur iðkað er boccia, sund, lyftingar, knattspyrna, golf, frjálsar íþróttir og einnig hafa verið tímar í blönduðum íþróttum og leikjum.

Eignast sína bestu vini innan félagsins
„Suðri hefur átt Íslandsmeistara í sundi, frjálsum íþróttum, lyftingum og boccia. Einnig hefur félagið átt landsliðsfólk í sundi og frjálsum íþróttum og hafa þau tekið þátt í mótum erlendis á vegum Íþróttasambands fatlaðra,“ segir Þorbjörg Vilhjálmsdóttir, stjórnarkona hjá Suðra.

„Það skiptir mjög miklu máli fyrir fatlaða að hafa félag eins og Suðra, bæði líkamlega og ekki síður félagslega. Margir iðkendur hafa eignast sína bestu vini innan raða íþróttafélagsins og líka eignast vini annars staðar á landinu í gegnum íþróttirnar,“ segir Þorbjörg. „Fólk keppir á jafnréttisgrundvelli sem verður til þess að margir verða sigurvegarar í fyrsta sinn. Allt þetta eflir jákvæða sjálfsmynd og sjálfstraust einstaklinga.“

Allir eiga jafna möguleika á að vera með
Á vegum íþróttasambands fatlaðra hafa margir Suðrafélagar tekið þátt í Special Olympics leikunum sem haldnir hafa verið víða um heim og eru í anda Ólympíuleikanna.

„Þessir leikar eru fyrir þroskahefta og allir eiga möguleika á að vera valdir til þátttöku og eiga möguleika á verðlaunum. Það eina sem þarf til er að æfa íþróttir,“ segir Þorbjörg og bætir því við að þetta séu ekki Ólympíuleikar fyrir afreksfólk, það séu Paralympics og á þá leika þarf ströng lágmörk.

Uppskera sigur á sjálfum sér
Að sögn Þorbjargar hefur einhverra hluta vegna reynst erfitt að ná til fatlaðra ungmenna á Suðurlandi. „Stundum veit fólk ekki af þessu starfi og stundum vilja fatlaðir frekar æfa með almennum félögum sem er hið besta mál.“

„Hins vegar er reynslan sú alls staðar að fatlað fólk hættir í íþróttum þegar kröfurnar eru orðnar of miklar og það kemst ekki í keppnislið almennu félaganna. Það finnst okkur mikil synd því við höfum séð svo marga fatlaða íþróttamenn blómstra í keppni á meðal annarra fatlaðra, á jafnréttisgrundvelli,“ segir Þorbjörg að lokum.

Sem fyrr segir rennur allur aðgangseyrir að völundarhúsinu á Engi til Suðra í júlí og um verslunarmannahelgina. Völundarhúsið er 1.000 fermetrar, úr klipptu limgerði og með kastala í því miðju. Það hefur notið mikilla vinsælda hjá ungum sem öldnum. Aðgangseyrir er aðeins 500 kr. fyrir 6 ára og eldri.


Keppendur frá Suðra ásamt Þórdísi Bjarnadóttur, formanni.

Fyrri greinMeistaramóts Íslands í frjálsum á Selfossvelli um helgina
Næsta greinNetpartar taka við ökutækjum til förgunar