Gáttaðir á iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Hreppsnefndarmenn í Mýrdalshreppi eru ósáttir við svör iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins við ósk hreppsins um styrk til uppsetningu varmadæla í Vík og segja ráðuneytið mismuna sveitarfélögum í þessum efnum.

Ásgeir Magnússon sveitarstjóri sendi inn erindi vegna málsins í september en fékk neitunarbréf þann 11. desember sl.

„Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að sveitarstjórnarmenn í Mýrdalshreppi voru orðlausir yfir afgreiðslu ráðuneytisins á erindinu, ekki bara því að það tók heila þrjá mánuði að hafna stuðningi við verkefnið, heldur líka þeirri mismunun sem okkar fámenna sveitarfélag þarf að sæta þar sem sama ráðuneytið hafði stutt algerlega sambærilegt verkefni um 10 milljónir króna í nágrannasveitarfélagi Mýrdalshrepps,“ segir Ásgeir. Nágrannasveitarfélagið, sem Ásgeir talar um er Skaftárhreppur.

Upphaf málsins má rekja til fundar þingmanna Suðurkjördæmis í kjördæmaviku í haust með sveitarstjórn Mýrdalshrepps þar sem sveitarstjórnarmenn kynntu tilraun í Vík að kynda skóla- og íþróttamannvirki sveitarfélagsins með varmadælu.

„Borað var eftir vatni og var vonast til að ná í átta til níu gráðu heitu vatni. Raunin varð sú að við erum aðeins með tæplega sex gráðu heitt vatn, en ætlum samt að nýta það til upphitunar,“ segir Ásgeir.

Hann segir að takist vel til sé um ákjósanlega leið til að orkusparnaðar fyrir sveitarfélög á köldum svæðum.

„Tilraun sem þessi er afar kostnaðarsöm fyrir okkar fámenni, en ef vel tekst til ætti sá kostnaður að skila sér til baka á nokkrum árum. Þar sem ekki fæst fjármagn til niðurgreiðslu húshitunar í skóla- og íþróttamannvirkjum er eðlilegt að ríkisvaldið komi að þessu verkefni með okkur og leggi þessari til raun lið,“ segir í kynningargögnum sveitarstjórnar til þingmanna. Þar segir einnig að eðlilegt sé að ríkið styrki slíkt verkefni, en á móti hafi sveitarfélagið skyldur til að veita öðrum í sömu stöðu aðgang að upplýsingum um það.

„Iðnaðar- og viðskiptaráðherra taldi þá að ráðuneytið hefði ýmsa möguleika á að styrkja slíkt verkefni og óskaði eftir formlegu erindi þar um, sem sent var ráðherra daginn eftir fundinn. Þetta var um miðjan september og svarið barst svo 11. desember,“ segir sveitarstjóri Mýrdalshrepps vonsvikinn með niðurstöðu málsins.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir málið enn til skoðunar í ráðuneytinu, henni hafi ekki verið kunnugt um innsent erindi sveitarstjórans fyrr en eftir að það hlaut hefðbundna meðferð innan ráðuneytisins. „Þetta kom aldrei á mitt borð og ég hef komið þeim skilaboðum til sveitarstjórans að málið sé því enn til skoðunar, enda finnst mér þetta spennandi verkefni,“ segir Ragnheiður Elín.

Fyrri greinÍslandshótel kaupir Hótel Heklu
Næsta greinSunnlenskir knattspyrnumenn meðal 30 efstu