Gatnagerð hafin á lóðinni við læknisbústaðinn

Læknisbústaðurinn á Kirkjubæjarklaustri stendur á stórri lóð sem nú hefur verið ákveðið að nýta undir fleiri íbúðarhús. Ljósmynd: klaustur.is/LM

Verktakafyrirtækið Framrás í Vík í Mýrdal hófst handa við gatnagerð á lóð læknisbústaðarins á Kirkjubæjarklaustri rétt fyrir páska.

Þar er verið að undirbúa lóðir fyrir þrjú hús sem búið er að úthluta til þriggja verktaka. Nýjatún ehf mun byggja raðhús með þremur íbúðum sem fá götuheitið Skriðuvellir 2, 4, og 6, Byggðaból ehf. mun byggja parhús sem verður nr. 8 og 10 og svo mun RR tréverk ehf byggja einbýlishús á Skriðuvöllum 14.

Læknisbústaðurinn sem fyrir er á lóðinni verður Skriðuvellir nr. 12. Verktakar geta hafist handa við byggingarframkvæmdir um leið og gatnagerð lýkur, þann 1. maí næstkomandi.

Skipulagðar hafa verið átta lóðir á læknisreitnum og verður skipt verður um jarðveg í öllum botnlöngunum í sumar og lagnir lagðar eftir því sem úthlutun lóða miðar áfram. Verkinu á að vera að fullu lokið þann 1. maí 2022 og botnlangarnir malbikaðir sumarið 2022.

Fyrri greinÁ hverju ætlum við að lifa?
Næsta greinFíkniefnasali handtekinn