Gatna- og stígagerð hafin í Hveragerði

Nýlega skrifaði Hveragerðisbær undir verksamning við jarðvinnuverktakann Arnon ehf. um gatna og göngustígagerð og er verkið nú hafið.

Verktakinn endurnýjar lagnir og leggur bundið slitlag á akbrautir og gangstéttar í Bröttuhlíð og Þverhlíð. Einnig endurnýjar hann göngustíg og girðingar um Drullusundið, sem er á milli Hveramerkur og Bláskóga og leggur nýja göngustíga á opnu svæði við Valsheiði, Lyngheiði og Arnarheiði.

Verkið er nú þegar hafið en framkvæmdir í Bröttuhlíð og Þverhlíð hefjast eftir páskana. Íbúar við þessar götur verða upplýstir um framgang verksins í tölvupósti.

Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki í september.