Gat á gufulögn skapaði myndarlegan goshver

Einhverjum Hvergerðingum brá nokkuð í brún eftir hádegi í dag þegar svo virtist sem nýr hver hefði opnast við Smágarðana við Breiðumörk.

Mikil gufa og nokkuð myndarlegar drulluspýjur gengu uppúr hvernum og vöktu óskipta athygli þeirra sem leið áttu um Breiðumörkina.

Þó að hverir hafi opnast á óvæntum stöðum í Hveragerði í gegnum tíðina var ekki svo í þessu tilviki því gat hafði komið á gufulögnina að Hótel Örk og þrýstingurinn í lögninni varð til þess að svo hressilega gaus uppúr holunni.

Starfsmenn Veitna brugðust skjótt við, skrúfuðu fyrir lögnina og fundu gat á röri sem nú hefur verið gert við. Neðst í fréttinni má sjá myndband sem Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, birti á Facebooksíðu sinni.


Starfsmenn Veitna unnu að viðgerð á lögninni síðdegis í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinGrétar Ari valinn í fyrsta sinn
Næsta greinMotley skoraði 50 stig í sigri á Val