Gaskútaþjófar gripnir

Lögreglan á Selfossi handtók í gærkvöldi þrjá unga menn er uppgötvaðist að þeir höfðu reynt að selja fjóra gaskúta sem hafði verið stolið.

Gistu þeir fangageymslur í nótt en við yfirheyrslur í dag kom í ljós að þeir höfðu stolið gaskútum víða um land.

Voru mennirnir eltir uppi frá Selfossi og handteknir í Hveragerði. Höfðu þeir reynt að koma gaskútunum í verð hjá bensínstöðvum og sagst vera að skila þeim eftir notkun. Gegn slíkum skilum fást nokkrir þúsundkallar fyrir kútinn.

Við yfirheyrslur játuðu mennirnir, sem eru á aldrinum 18-30 ára, að hafa stolið gaskútum víða um land. Komu fleiri lögregluembætti að rannsókn málsins en mennirnir höfðu m.a. stolið kútum á Hvolsvelli, Selfossi og víðar. Þeir eru allir íslenskir en ekki liggur fyrir hvort þeir hafi komið við sögu lögreglunnar áður. Þeim var sleppt að lokinni yfirheyrslu.

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinGrétar tekur við rekstri Endor
Næsta greinHreppurinn tekur við Dyrhólaey