Garðlist bauð lægst í sláttinn við ströndina

Á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Garðlist ehf átti lægsta tilboðið þegar grassláttur á vegum Sveitarfélagsins Árborgar á Eyrarbakka og Stokkseyri var boðinn út fyrr í vor.

Tilboð Garðlistar hljóðaði upp á 22,3 milljónir króna og var 70% af áætluðu kostnaðarmati sveitarfélagsins, sem hljóðar upp á 31,9 milljónir króna.

Verkið er boðið út til þriggja ára, með möguleika á framlengingu um eitt ár í senn, tvisvar sinnum. Um er að ræða allan grasslátt á opnum svæðum, leiksvæðum og stofnanalóðum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Slegið er á 10-20 daga fresti en mismunandi tíðni er á þeim svæðum sem slegin eru.

Sjö önnur tilboð bárust í verkið. Fosshamar bauð 27,4 milljónir króna, Slátturverk ehf 27,9 milljónir, Þrístólpi 28 milljónir, Garðaþjónusta Sigurjóns 32,1 milljón, Slegið ehf 44 milljónir, Efstafell ehf 47,5 milljónir og Garðar og tré 61.2 milljónir króna.

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að semja við Garðlist og fól bæjarstjóra að undirrita samninginn.

Fyrri greinSviðsstjóri Íslands gerði allt vitlaust
Næsta greinHrossaveisla og skemmtikvöld í Hvítahúsinu