Garðyrkjubændur eiga fánaröndina

Hæstiréttur hefur úrskurðað að Matfugl ehf. má ekki nota íslenska fánarönd í merki sínu á þann máta sem gert hefur verið.

Fyrirtækinu er gert, samkvæmt dómsúrskurði Hæstaréttar, að farga öllum umbúðum og kynningarefni sem fyrirtækið hefur látið gera með þessu auðkenni. Þótti merkið á vörum Matfugls svipa um of til vörumerkis garðyrkjubænda, sem fengið hafa fánaröndina sem skrásett vörumerki. Samband garðyrkjubænda höfðaði mál á hendur Matfugli en tapaði málinu í í héraði í fyrravor. Hæstiréttur snéri þeim dómi við í síðustu viku.

Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda sagðist í samtali við Sunnlenska vera ákaflega ánægður með niðurstöðu hæstaréttar. Fánaröndin væri ákveðin útfærsla á fánalitunum og notuð með textanum íslensk blóm eða íslenskt grænmeti allt frá árinu 2002. Var þessi útfærsla skrásett 2006 sem vörumerki íslenskrar garðyrkju.

Bjarni segir að garðyrkjubændur hafi lagt hátt í 300 milljónir króna í markaðssetningu á vörumerki sínu og samkvæmt könnun sé það í 12. sæti yfir þekktustu vörumerki á Íslandi.

Matfugl ehf. hóf að nota mjög svipaða útfærslu á kjúklingabringur 2009 og fljótlega kröfðust garðyrkjubændur þess að fyrirtækið léti af því en því hafnaði Matfugl. Töldu garðyrkjubændur að margítrekuð áföll Matfugls vegna salmonellusmits gætu haft áhrif á markaðssetningu garðyrkjunnar og höfðuðu því málið á hendur fyrirtækinu sem vannst nú endanlega.

Fyrri greinBrotist inn í Heiðabyggð
Næsta greinLýst eftir ökumanni jeppa