Ganga yfir Mýrdalsjökul í minningu Guðsteins

Næstkomandi föstudag ætla tveir sjúkraflutningamenn á HSu að ganga á skíðum yfir Mýrdalsjökul og safna áheitum fyrir fjölskyldu Guðsteins Harðarsonar sem lést af slysförum þann 6. apríl sl.

Það eru þeir Arnar Páll Gíslason og Sigurður Bjarni Sveinsson sem standa fyrir Guðsteinsgöngunni en þeir ætla að ganga 27 kílómetra leið yfir þveran jökulinn, frá norðri til suðurs, einn kílómetra fyrir hvern mánuð sem Guðsteinn lifði. Þeir Arnar Páll og Sigurður eru báðir vanir fjallamenn og ætla að ganga yfir jökulinn eins og hann leggur sig í einum rykk.

Arnar Páll, og móðir Guðsteins eru systkinabörn, svo málið stendur honum nærri. Hann segir að fjölskyldan hafi nýhafið búskap á bænum þegar áfallið reið yfir. „Það er auðvitað ekkert sem getur dregið úr þeirri sorg sem fjölskyldan er að ganga í gegnum, en við viljum að minnsta kosti gera það sem við getum til að létta þeim lífið,“ segir Arnar Páll. „Við viljum ekki að þau hafi peningaáhyggjur ofan á allt annað.“

Fjöldi fyrirtækja hefur stutt við verkefnið en einnig hefur verið opnaður styrktarreikningur þar sem hægt er að leggja fjölskyldunni lið með frjálsum framlögum. Reikningsnúmerið er 0317-26-103997 og kennitalan 060684-2359.

Guðsteinsgangan á Facebook

Fyrri greinMyndir: FSu fagnaði vel
Næsta greinLandeyjahöfn er Rangæingur