„Ganga er ekki raunhæfur ferðamáti fyrir stóran hluta Selfyssinga“

Anne Steinbrenner. Ljósmynd/Aðsend

Nýverið birtist einkar áhugaverð rannsókn um Selfossbæ og skipulag hans, en rannsóknin var efni meistararitgerðar skipulagsfræðingsins Anne Steinbrenner við skipulags- og hönnunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ritgerð hennar ber heitið „Greining á Selfossi út frá skipulagshugmyndinni um 20 mínútna bæinn. Kortlagning svæða eftir aðgengi að þjónustu í GIS og tillögur að skipulagi“.

Snýst ekki um bíllausan lífstíl
Anne er fædd í Þýskalandi en hefur búið á Íslandi í 15 ár, nú síðast í Kópavoginum. Henni fannst Selfoss vera spennandi viðfangsefni út af fólksfjölguninni og fyrirhugaðri breytingu á hringveginum.

„Ritgerðin fjallar um skipulagshugmyndina um 20 mínútna hverfið eða bæinn. Hún gengur út frá því að það taki aðeins 10 mínútur að ganga að lykilþjónustu frá heimilinu og 10 mínútur til baka; sem sagt í matvörubúð, leikskóla, grunnskóla, að strætóstoppistöð og fleira,“ segir Anne í samtali við sunnlenska.is.

„Mikilvægur þáttur í hugmyndinni er aðlaðandi bæjarumhverfi með góðum gönguleiðum, fjölbreyttu húsnæði og ákveðnum þéttleika. Þannig hvetur umhverfið og nálægð við áfangastaði til göngu og hjólreiða í stað þess að fólk noti einkabílinn. Þetta snýst samt ekkert endilega um bíllausan lífsstíl, heldur frekar um það að fækka bílum á fjölskyldu og skapa val um ferðamáta.“

Áhætta að færa þjóðveginn
Anne segir að hugmyndin um 20 mínútna hverfið sé mjög viðamikil en í ritgerðinni horfi hún sérstaklega á aðgengi. „Maður gæti haldið að staður eins og Selfoss sé það lítill að allt ætti að vera í göngufæri, en er það í raun og veru? Tilgangur rannsóknarinnar er að komast að því, og auk þess að gera tillögur að skipulagi til að gera Selfoss að betri göngubæ.“

„Selfoss er spennandi viðfangsefni út af þessum miklu breytingum sem eiga sér stað. Bærinn hefur mikið aðdráttarafl og hefur vaxið hratt. Það er kominn nýr miðbær og til stendur að færa þjóðveginn úr bænum. Það er ákveðin áhætta fólgin í því að færa þjóðveginn, nýi vegurinn gæti sogað til sín þjónustu í útjaðar bæjarins.“

Vankantar á nýja aðalskipulaginu
Aðspurð hvernig þetta rannsóknarefni hafi orðið fyrir valinu segir Anne að hún hafi mikinn áhuga á landupplýsingakerfum, sem eru meðal annars notuð til að greina umhverfið.

„Skipulagsfræði snertir mörg viðfangsefni eins og samgöngur, byggingarmál, náttúru og samfélagið. Allir þessir hlutir eru tengdir í gegnum ákveðna staðsetningu. Með því að setja landfræðileg gögn í ákveðið samhengi getur margt nýtt komið í ljós. Í mínu tilfelli setti ég saman gögn um vegakerfið, staðsetningu á heimilum, íbúafjölda og staðsetningu áfangastaða og bjó til sjónræna mynd af aðgengi íbúa að þjónustustöðum með svokallaðri netgreiningu. Niðurstöðuna má sjá í kortinu hér fyrir neðan.

Aðgengi að þjónustu innan 10 mínútna göngufjarlægðar frá heimilum.

„Þetta kort hefur sterk skilaboð. Það er augljóst að ganga er ekki raunhæfur ferðamáti fyrir stóran hluta Selfyssinga, sérstaklega ekki fyrir þá sem búa langt frá Austurveginum. Dreifingin á þjónustunni eins og hún er í dag hentar ekki sívaxandi bænum. Bærinn stækkar mikið til suðurs og í nýja aðalskipulaginu er varla gert ráð fyrir verslunarsvæði í suðurhlutanum.“

Gönguvænasta svæðið þar sem fáir búa
Anne segir að þegar horft er á fjölda og dreifingu íbúa er áberandi að mikið af þéttbyggðu svæðunum eru á jaðrinum, þar sem aðgengið er lítið, til dæmis Lækjahverfið, Landahverfið og Hólahverfið.

„Hinsvegar er gönguvænasta svæðið í kringum Austurveg með mjög fáa íbúa og mörgum einbýlishúsum. Svo má ekki gleyma nýju íbúunum sem munu bætast við sunnan við Suðurhóla. Samkvæmt nýju aðalskipulagi Árborgar 2020-2036 eru 3.800 til 4.900 íbúðir fyrirhugaðar á þessu svæði.

„Það vekur spurninguna um hvaða staðsetning á þjónustukjarna myndi henta best til að þjóna sem flestum íbúum í einu, sem koma gangandi innan 10 mínútna. Þá kemur í ljós að hann væri frekar sunnan megin en ekki við Austurveginn. Þá sést líka, með hjálp netgreiningarinnar, að einn hverfiskjarni er ekki nóg fyrir alla íbúa.

Íbúar vilja betri dreifingu matvöruverslana
Til að sjá hvort þessi niðurstaða samsvaraði upplifun Selfyssinga gerði Anne skoðanakönnun í gegnum Facebook. Alls tóku 255 manns þátt í könnuninni og komu flestir þátttakendur úr Facebook-grúppunni „Íbúar á Selfossi“. Áhugi meðal fólks var svo mikill að svörin komu næstum því öll innan þriggja sólarhringa.

„Af þátttökunni og svörunum gat ég séð að efnið höfðaði til mjög margra. Svörin voru nokkurn veginn í samræmi við niðurstöður netgreiningarinnar. Það komu svör eins og „ég held bara að Selfoss sé orðin of stór til að vera göngubær“ eða „setja upp þjónustu ekki bara í miðbænum.“ Nokkrir þátttakenda í skoðanakönnuninni kölluðu eftir betri dreifingu matvöruverslana og aukningu á fjölda þeirra innan hverfa.“

Hafa áhyggjur af öryggismálum í umferðinni
Þátttakendur könnunnar voru almennt sammála um að úrbóta væri þörf á Selfossi. Aðspurðir hvort hentugt væri að sinna erindum á Selfossi gangandi sögðu 20% já, 30% nei og 50% að hluta til. Við spurningunni „Hvað vantar til að gera Selfoss að betri göngubæ?“ komu margar gagnlega ábendingar og tillögur um úrbætur. Margir nefndu að gangstéttir á Selfossi eru í slæmu ástandi og þarfnist lagfæringar.

„Ósk um fleiri bekki, ljós, ruslatunnur, undirgöng eða göngubrýr og gangbrautir kom einnig fram. Sumir íbúar á hafa greinilega miklar áhyggjur af öryggismálum í umferðinni. Til dæmis var nefnt að umferð „sprengi og eyðileggi bæinn“ og mikill „hraði sé á götum og bílum illa lagt“. Sumir vilja setja gangandi í forgang og að hjólastígar yrðu aðskildir gangstéttum. Bílamenningin virðist vera rótgróin á Selfossi og sumir svarendur nefndu að það þurfi hugarfarsbreytingu,“ segir Anne.

Mikilvægt að elta ekki bara nýja þjóðveginn
Anne bindur vonir við að rannsóknin hennar gagnist Sveitarfélaginu Árborg og að bærinn verði skipulagður með óskir og þarfir íbúa í huga.

„Ég held að hugmyndin um 20 mínútna bæ geti verið svarið við mörgum vandamálum sem Árborg glímir við og getur aukið lífsgæði bæjarbúa. Ritgerðin mín getur opnað augu bæjaryfirvalda fyrir því hvernig bærinn er staddur varðandi dreifingu á þjónustu og mikilvægi þess að halda staðsetningu þjónustu fyrir íbúa innan Selfoss í stað þess að elta nýja þjóðveginn. Ég vona að ég hafi getað gefið smá innsýn í hvað fólk finnst um bæinn því skipulagið verður að hafa óskir íbúa að leiðarljósi.“

Fólk neyðist oft til að eiga bíl
Sem fyrr segir hefur Anne verið búsett á Íslandi í 15 ár. „Ég flutti til Íslands árið 2008 en ólst upp í Dessau í Austur-Þýskalandi í hverfi sem myndi sennilega flokkast sem 20 mínútna hverfi í dag. Það var stutt í allt og við krakkarnir flökkuðum á milli skóla og heimilis á eigum vegum, oftast gangandi og á hjóli, en líka í sporvagni eða strætó.“

„Fyrir sameiningu Þýskalands voru langflestir sem ég þekkti bíllausir. Fólkið gekk eða hjólaði í allt: í vinnuna, í búð, með barn á leikskóla, í garðinn sinn og svo í hjólatúr um helgar. Reyndar er landslagið í Dessau algjörlega flatt og veðrið oftast gott allan ársins hring. Á þessum tíma hafði fólk ekkert endilega þann valkost að eiga bíl en á Íslandi hefur fólk oft ekki þennan valkost að hjóla eða ganga, sem einnig takmarkar frelsi einstaklinga.“

„Kannski er það bakgrunnurinn sem hefur vakið áhuga minn á ferðamátum, eða því að ég valdi þetta viðfangsefni,“ segir Anne að lokum en þess má geta að hún er einnig með mastersgráðu í umhverfisskipulagi og skrifaði síðast lokaritgerð um breytingu á ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu eftir efnahagskreppuna 2008.

Áhugasamir geta lesið rannsókn Anne hér.

Fyrri greinKristinn Þór tvöfaldur Íslandsmeistari
Næsta greinÁsa Björk ráðin prestur í Árborg