Game of Thrones í Mýrdalnum

Tökur á bandaríska sjónvarpsmyndaflokknum Game of Thrones hefjast á suðvesturlandi í lok nóvember og er gert ráð fyrir að allt að 150 manns verði á svæðinu vegna þeirra.

Fyrirtækið Mýrdælingur ehf. mun aðstoða við verkið. Að sögn Gísla D. Reynissonar, eiganda félagsins, er gert ráð fyrir að tökur hefjist 25. nóvember og standi í að minnsta kosti hálfan mánuð.

Gísli segir að um áhugavert verkefni sé að ræða og ljóst að talsverð vinna verði í kringum það. Tökurnar fara fram í Öræfum, Suðursveit og Mýrdalnum.

Mýrdælingur er frá Vík í Mýrdal og sérhæfir sig í ýmsum verkefnum meðal annars aðstoð við kvikmyndagerðarmenn. Að sögn Gísla er verkefni við íslenska kvikmynd einnig að hefjast og þá eru nokkur spennandi verkefni til skoðunar á næsta ári.