„Gaman að halda upp á 30 ára afmælið“

Tómas Þóroddsson, veitingamaður á Selfossi. Athugið, myndin er samsett. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Um þessar mundir fagnar veitingastaðurinn Kaffi Krús á Selfossi 30 ára afmæli. Af því tilefni verður 30% afsláttur af hinum ýmsu réttum á matseðli fram á næsta sunnudag.

„Það er mjög gaman að halda upp á 30 ára afmælið, það eru ekkert margir veitingastaðir sem ná því. Við verðum með fullt af tilboðum í gangi alla vikuna og það verður auðvelt að fylgjast með á Instagram og Facebook,“ segir Tómas Þóroddsson, eigandi Kaffi Krúsar, í samtali við sunnlenska.is.

Tómas segir að fastakúnnar Krúsarinnar séu margir. „Það er gaman að því hvað við erum með marga fastakúnna, heimamenn sem koma mjög oft, sumarbústaðarfólk sem kemur alla föstudaga eða sunnudaga og svo eru útlendingar sem koma á hverju ári, nema auðvitað í Covid. Til dæmis kom einn til mín um daginn og spurði afhverju ég hefði byggt við Krúsina í Covid. Einn kemur á hverju ári, gistir tíu nætur á Lambastöðum og borðar öll kvöld hjá okkur.“

„Ég vil nota tækifærið og þakka öllum okkar fastakúnnum fyrir tryggðina og viðskiptin í gegnum árin,“ segir Tómas glaður í bragði að lokum.

Fyrri greinHlaupið mun ekki hafa áhrif á vegi og brýr
Næsta greinHamar hóf titilvörnina á sigri