„Gaman að finna hvers maður er megnugur þegar maður fer út fyrir þægindaramman“

Aldís Þóra Harðardóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Aldís Þóra Harðardóttir hefur starfað sem kírópraktor frá árinu 2015 hjá Sjúkraþjálfun Selfoss við gott orðspor.

Nýverið var Aldís Þóra stödd á Norðurlandaráðstefnu kírópraktora í Danmörku að kynna verkefni sem hún ásamt öðrum kírópraktorum í Danmörku eru að vinna að. Verkefnið felst í að búa til gervigreind, sem ætlað er að besta röntgenmyndatöku.

Komst inn í fyrstu tilraun
Segja má að það hafi verið tilviljun sem réði því að Aldís Þóra ákvað að læra kírópraktík. „Upphaflega var ég að velta fyrir mér sjúkraþjálfun en langaði samt að prófa eitthvað nýtt og jafnvel flytja erlendis. Svo fór tengdapabbi minn til kírópraktors í Reykjavík og benti mér á að þetta gæti kannski verið eitthvað fyrir mig. Ég ákvað að kynna mér málið og fór í heimsókn á stofu í Reykjavík,“ segir Aldís Þóra í samtali við sunnlenska.is.

„Mér leist mjög vel á að prófa eitthvað öðruvísi og geta aðstoðað fólk án þess að nota bara lyf. Ég ákvað því að prófa að sækja um og varð Danmörk fyrir valinu, en þar er mjög virtur og góður skóli sem getur verið erfitt að komast inn í. Ég komst hins vegar inn í fyrstu tilraun og ég og maðurinn minn fluttum þá til Óðinsvéa í Danmörku.“

„Námið er fimm ár og maður fylgir læknisfræði fyrstu þrjú árin með auka verklegum áföngum. Svo skilja leiðir síðustu tvö árin. Eftir útskrift þarf maður að vinna í eitt ár undir handleiðslu, þannig að þetta eru eiginlega sex ár í heildina.“

Meðhöndlar allt stoðkerfið
Aldís Þóra segir að kírópraktík sé fyrir alla á öllum aldri sem eiga við einhvers konar stoðkerfisvandamál að stríða. „Kírópraktor er sérfræðingur í stoðkerfi og hefur mikla þekkingu á taugakerfinu og mikil áhersla er lögð á greiningu. Kírópraktor meðhöndlar allt stoðkerfið og oft er áhersla á hnykkingar og liðlosun en það er alls ekki það eina sem kírópraktor gerir.“

„Við lærum einnig ýmiskonar mjúkvefjameðferð, leiðbeinum með æfingar og líkamsbeitingu. Áherslan er sérstaklega á hryggsúluna og algeng vandamál sem kírópraktorar fást við eru t.d. allskonar bakverkir, tak í baki eða þursabit, vöðvabólga og höfuðverkur, brjósklos og margt fleira. Kírópraktorar læra að taka röntgenmyndir og læra að lesa úr röntgen og segulómun. Það er alls ekki þannig að það þurfi alltaf að taka mynd fyrir meðhöndlun, það er alltaf metið út frá sjúkrasögu og skoðun.“

Aldís Þóra kynnir verkefnið á Norðurlandaráðstefnu kírópraktora í Danmörku. Ljósmynd/Sigurjón Bergsson

Sérfræðingur í baki og hryggsúlu
Aðspurð hver sé munurinn á kírópraktík og sjúkraþjálfun segir Aldís Þóra þetta tvennt hafi að einhverju leyti svipaðan grunn. „Það sem er mest frábrugðið kannski er að sjúkraþjálfarar sinna endurhæfingu eins og t.d. eftir aðgerðir en það gera kírópraktorar ekki. Kírópraktorar hnykkja en yfirleitt hnykkja sjúkraþjálfarar ekki, það eru þó einhverjir sem hafa náð sér í réttindi til þess. Kírópraktor er meiri sérfræðingur í baki og hryggsúlu og mikil áhersla á greiningu. Kírópraktorar hafa einnig rétt til að nýta sér myndgreiningu í takt við áherslu á greiningu.“

„Það er rosalega misjafnt hvað fólk þarf að koma oft. Sumir eru kannski bara með eitt smá tak sem þarf að losa og þá geta 2-3 skipti dugað en aðrir eru með mun stærri vandamál og þurfa kannski að koma nokkuð ört til að byrja með og viðhalda því svo á mánaðar fresti. Og svo bara allt þar á milli.“

Gervigreind til að meta gæði röntgenmynda
„Þegar ég útskrifaðist flutti ég til Herning, þar sem ég var í starfsnámi. Þar var ég að vinna sem kírópraktor á stórri stofu. Einn af eigendum stofunnar er með mikla reynslu af röntgen og vinnur sem röntgenráðgjafi hjá „Kiropraktorernes Videncenter“ sem er starfsstöð sem heldur utan um rannsóknir, endurmenntun og gæðaeftirlit fyrir kírópraktora í Danmörku. Hann var að byrja í doktorsnámi í kírópraktík, þegar ég var að vinna hjá honum og fékk mig og annan kírópraktor til að aðstoða sig með rannsóknarverkefni.“

„Við gáfum út tvær rannsóknarskýrslur sem byggðu á því að við vorum að meta gæði röntgenmynda á kírópraktorstofum í Danmörku eftir evrópskum gæðastaðli. Skýrslurnar fjölluðu um hvernig gæðin eru í Danmörku og hvernig okkur gekk að vera sammála við mat á röntgenmyndunum. Í fyrra hafði hann svo samband við mig aftur, þar sem ég var beðin um að vinna að nýju verkefni í samstarfi við „Kiropkraktorernes Videncenter“ og belgískt fyrirtæki sem heitir „AGFA Healthcare“.“

Aldís Þóra segir að AGFA ætli að búa til gervigreind sem getur unnið sömu vinnu og þau hafa verið að gera, það er að segja meta gæðin á röntgenmyndum. „Með aðstoð gervigreindar er þá hægt að meta gæðin á hverri einustu mynd sem er tekin, um leið og hún er tekin. Núna er ég semsagt að meta eins mikið af myndum og ég kemst yfir til að búa til nógu stóran gagnagrunn, sem AGFA mun svo byggja gervigreindina á.“

„Þetta verkefni og þessar tvær skýrslur sem við gáfum út vorum við svo fengin til að kynna á kírópraktoraráðstefnu í Danmörku núna í nóvember, þar sem hvert okkar sagði frá sínum hluta verkefnisins. Þetta hefur verið bæði krefjandi og skemmtilegt. Mér hefur stundum liðið eins og ég sé í of stórum skóm í þessu ferli, en hins vegar er gaman að finna hvers maður er megnugur þegar maður fer aðeins út fyrir þægindaramman,“ segir Aldís Þóra og brosir.

Sem fyrr segir er Aldís Þóra með starfsaðstöðu hjá Sjúkraþjálfun Selfoss við Austurveginn á Selfossi. Einnig er hún með aðstöðu hjá Kjarna sem er stofa í Síðumúla í Reykjavík þar sem hún getur meðal annars tekið röntgenmyndir.

Fyrri greinÞór mætir Val í undanúrslitum
Næsta greinElín og Bjarni fengu menningarviðurkenningu Árborgar 2021