„Gaman að jaskast svona í hlutunum“

Elfa Dögg Þórðardóttir, hótelstjóri í Hveragerði, stendur í stórræðum þessa dagana, en á morgun opnar hún nýtt gistiheimili, veitingahús og skyrgerð í gömlum sögulegum byggingum í Hveragerði sem hún eignaðist fyrir skömmu.

Um er að ræða hús sem í var skyrgerð í gamla daga en þar hefur verið annarsskonar starfsemi inn á milli. Framundan er að þar verði alls 15 herbergja gistiheimili, ásamt kaffi og bistro, en að auki er stóri samkomusalurinn, sem nota á undir stærri hópa, skemmtanahald ýmislegt og fleira.

Opnar á afmælisdaginn
Elfa ætlar að opna á morgun, laugardaginn 11. júní. „Það er afmælisdagurinn minn, er ekki ágætt að miða við það, svona í stað þess að vera að taka því rólega þann daginn,“ segir Elfa.

Hún er ekki óvön ferðaþjónustunni, því í síðustu viku voru fjögur ár frá því hún keypti og fékk afhent hótel Frost og funa í Hveragerði, og hefur hún staðið vaktina þar nánast síðan.

Elfa segir hugmyndina um að kaupa meira húsnæði undir ferðamanninn hafa kviknað með símtali þar sem henni var sagt að húsnæðið væri komið á sölu. „Ég var lengi búin að horfa á þetta hús, og ég bauð bara í það, án þess kannski að vita hvað ég ætlaði að gera við það,“ segir Elfa.

Fyrri grein„Ég hefði svo sem ekki viljað hafa mig eða minn líka í vinnu!“
Næsta greinLandsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði um helgina