Gámaþjónustan ætlar í skaðabótamál

Sveitarfélagið Árborg braut gegn Gámaþjónustunni hf. og er skaðabótaskylt, vegna ógildingar á útboði á sorphirðu í Árborg í desember sl. Það er niðurstaða Kærunefndar útboðsmála.

„Við teljum þessa niðurstöðu vera grundvöll að skaðabótakröfu sem við munum að sjálfsögðu leggja fram,” sagði Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar hf. í samtali við Sunnlenska. Kærunefndin dæmdi Árborg til að greiða Gámaþjónustunni 400.000 krónur í málskostnað.

Gámaþjónustan kærði útboð Árborgar á sorphirðu þann 16. desember sl. Þegar tilboð lágu fyrir var ákveðið að falla frá útboðinu vegna mögulegra formgalla á útboðinu, að mati meirihluta bæjarstjórnar. Þá var samið við þáverandi sorphirðuaðila, Íslenska gámafélagið ehf., til sex mánaða á meðan unnið væri að nýju útboði. Það taldi Gámafélagið ólögmætan gerning og hefur nú fengið viðurkenningu á því hjá Kærunefndinni.

Í samtali við Sunnlenska bendir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, á að aðalkröfu Gámaþjónustunnar hefði verið hafnað alfarið en hún fólst í að gengið yrði til samninga við þá á grundvelli tilboðsins.

„Annars erum við þessa dagana að ganga frá nýjum tilboðsgögnum og hyggjumst auglýsa nýtt útboð á sorphirðu innan skamms. Þá geta væntanlega allir gert tilboð sem áhuga hafa á því og við gerum ráð fyrir að opna tilboðin skömmu eftir páska,” sagði Ásta.