Gagnvirk orkusýning í Búrfellsstöð

Ný gagnvirk orkusýning um endurnýjanlega orkugjafa verður opnuð við hátíðlega athöfn í Búrfellsstöð á morgun, laugardag kl. 15.

„Sýningunni er ætlað að veita landsmönnum sem og erlendum gestum innsýn í vinnslu og notkun endurnýjanlegra orkugjafa en eftirspurn eftir slíkum orkugjöfum fer vaxandi um heim allan,“ segir í tilkynningu frá Landvirkjun.

„Gagnvirka orkusýningin í Búrfellsstöð varpar ljósi á endurnýjanlega aflgjafa, tækifæri og takmarkanir auk sögu nýtingar þeirra á Íslandi. Tilgangurinn er að fræða og skemmta á lifandi hátt en um leið að miðla þekkingu um ólíka orkugjafa og áhrif þeirra á samfélag, efnahag og umhverfi.“

Þá segir að markmið Landsvirkjunar sé að vera leiðandi fyrirtæki á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Með því að auka þekkingu og skilning á endurnýjanlegum orkugjöfum vill Landsvirkjun stuðla að því að ný þekking fæðist og að nýsköpun eigi sér stað í orkugeiranum.

Gagnvirka orkusýningin er hönnuð af Gagarín fyrir Landsvirkjun og verður opin frá 12. júní til 31. ágúst frá kl. 10 -17 alla daga.

Fyrri greinÁkvörðun um Ölfusárvirkjun flýtt
Næsta greinSelfoss upp í 2. sætið