Gagnrýni minnihlutans átti rétt á sér – Elfa Dögg fordæmir vinnubrögðin

Harðar umræður spunnust um sorphirðuútboð í Árborg á fundi bæjarráðs í gærmorgun. Þar var fjallað um úrskurð Kærunefndar útboðsmála vegna kæru Gámaþjónustunnar á útboðinu.

Sigurður Sigurjónsson, bæjarlögmaður kom á fundinn og fór yfir niðurstöðu kærunefndar. í kjölfar þess lögðu Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, og Helgi S. Haraldsson, B-lista, fram bókun vegna úrskurðar nefndarinnar.

„Það er skoðun [okkar] að sú gagnrýni, sem minnihluti bæjarstjórnar hafði í frammi þegar sú ákvörðun var tekin að hafna tilboðum sem bárust vegna sorphirðuútboðs fyrr í vetur, hafi átt fullan rétt á sér og er staðfest í úrskurði kærunefndar útboðsmála,“ segja þeir Eggert og Helgi í bókun á fundinum.

Í úrskurði kærunefndar segir að sú ákvörðun meirihlutans að hafna öllum tilboðum hafi hvorki verið byggð á valforsendum útboðsins né því að forsendur útboðsins hafi brostið og því verið ólögmæt. Sveitarfélagið sé því skaðabótaskylt gagnvart Gámaþjónustunni.

Elfa Dögg fordæmir vinnubrögð meiri- og minnihlutans
Elfa Dögg Þórðardóttir, fulltrúi D-lista, vék af fundi við afgreiðslu málsins í bæjarráði í gær en kom aftur inn að loknum umræðum og lagði þá fram harðorða bókun þar sem hún gagnrýnir meðal annars samflokksmenn sína í meirihlutanum fyrir vinnubrögðin í sambandi við útboðið.

Í bókuninni segist Elfa Dögg fordæma þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið varðandi útboðið. „Allt frá undirbúningi útboðsins og fram til dagsins í dag hefur verk- og lögfræðikostnaður vegna málsins verið mikill sem má rekja til óvandaðra vinnubragða þeirra aðila sem komu að málinu á öllum stigum þess. Þetta á við bæði minnihluta og meirihluta sem komu að gerð útboðsgagna, afgreiðslu málsins á síðari stigum þar sem greinilegt skilningsleysi allra aðila og óljós rökstuðningur fyrir höfnun tilboða leiddi til pólitískra deilna þar sem ærumeiðandi ummæli voru viðhöfð um einstaklinga sem tengjast atvinnulífi sveitarfélagsins. Það er gjörsamlega óviðunandi að heiðarlegt fólk sem gefur kost á sér til starfa fyrir sveitarfélagið skuli ekki geta treyst því að í viðkvæmum málum sé vandað betur til verka til að forðast megi ærumeiðingar og sóun á almannafé,“ segir í bókun Elfu Daggar.