Gagnrýna SASS og Strætó harðlega

"Okkur finnst við vera lítilsvirt með þessari breytingu og ég tek ekki undir ábyrgð á þessu fyrirkomulagi sem starfsmaður sveitarstjórnar hér."

Þetta segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri í Skaftárhreppi, um samkomulag Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Strætó um nýja áætlun almenningssamgangna á Suðurlandi.

Sveitarstjórn krefst þess að SASS endurskoði almenningssamgöngurnar nú þegar og mótmælir harðlega skerðingu Strætó á almenningssamgöngum. Sveitarstjórn bendir á að þar til um áramótin voru þrjár ferðir á viku, á þriðjudögum, föstudögum og sunnudögum yfir vetrartímann og daglega yfir sumarið. Nú gerir áætlun Strætó hins vegar einungis ráð fyrir ferðum á föstudögum og sunnudögum.

Ekki var leitað álits Skaftárhrepps á breytingunum og sem dæmi sé engar upplýsingar að fá um hvenær samgöngur eigi að breytast með vorinu.

Eygló bendir líka á að núverandi fyrirkomulag geri framhaldsskólanemum ekki kleift að taka rútu frá Selfossi né Reykjavík á föstudögum því farið er þaðan að morgni til.

Fyrri greinDæmdur maður í farbanni flúði land
Næsta greinHvergerðingar ánægðir með Skólahreysti