Gagnaveita Reykjavíkur bauð lægst í ljósleiðarakerfið í Árborg

Ljósleiðari lagður á Skeiðunum. Mynd úr safni.

Gagnaveita Reykjavíkur átti lægra tilboðið uppbyggingu og rekstur ljósleiðarakerfis í dreifbýli Árborgar en tilboð í verkið voru opnuð síðastliðinn þriðjudag.

Tilboð Gagnaveitu Reykjavíkur hljóðaði upp á rúmar 45,3 milljónir króna. Míla bauð einnig í verkið, rúmar 53,9 milljónir króna. Kostnaðaráætlun verkfræðistofunnar Eflu í verkið er rúmar 83,5 milljónir króna.

Um er að ræða sameiginlegt tilboð í fyrsta og annan áfanga verksins. Gert er ráð fyrir að bjóðandi verði eigandi kerfisins og allar fjárfestingar í efni og öðru sem tengjast því eru eignfærðar á hann. Jafnframt sér bjóðandi um rekstur kerfisins til frambúðar. 

Verklok fyrsta áfanga, í Sandvíkuhreppi, eru ekki síðar en 20. desember næstkomandi og verklok annars áfanga, í dreifbýlinu við Eyrarbakka og Stokkseyri, ekki síðar en 31. ágúst á næsta ári.