Gáfu HSu fæðingarrúm og afhjúpuðu veggteppi

Í síðustu viku mættu konur frá 26 kvenfélögum Samtaka sunnlenskra kvenna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til þess að afhjúpa veggteppi sem prjónað var af konum úr öllum félögunum.

Veggteppið heitir „Frá fjalli til fjöru – fjöru til fjalls austan og vestan Þjórsár“ og er sett saman úr 1.200 bútum sem eru 5×5 cm. að stærð. Teppið sjálft er 2,5 m á breidd og 1,2 m á hæð. Teppið var prjónað á göngu og samtals gengu konurnar 85 km prjónandi búta í teppið, í lotum þó. Með þessu vildu þær hugsa til formæðra sinna, sem gengu milli bæja prjónandi og misstu varla niður lykkju.

Það var Elínborg Sigurðardóttir núverandi formaður SSK sem sagði frá aðdraganda hugmyndarinnar og ferlinu við gerð teppisins. Hugmyndina að gerð þess átti Rosemarie Þorleifsdóttir fyrrverandi formaður SSK. Þess má geta að Nettó á Selfossi gaf allt garn í verkefnið en um er að ræða íslenskt kambgarn frá Ístex.

SSK vildi með þessu halda uppá 85 ára afmæli sambandsins og safnaði áheitum á prjónagöngunni og voru þeir peningar notaðir til kaupa á nýju fæðingarrúmi fyrir fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Gjafabréf fyrir rúminu var formlega afhent HSu við sama tilefni en rúmið var tekið í notkun í vor og upplýsti Herborg Pálsdóttir, ljósmóðir, að síðan rúmið kom á fæðingadeildina hafi tólf börn fæðst í því og til gamans má geta þess að barnabarn Herborgar sjálfrar var fyrsta barnið sem fæddist í rúminu.

Andvirði gjafarinnar er 2.548.835 kr.

Í gegnum árin hefur SSK gefið öllum nýfæddum börnum á Suðurlandi handprjónaða gjöf. Þau börn sem fæðast árið 2014 fá öll peysu, þau sem fæddust 2013 fengu smekk og börn fædd 2012 fengu sokka og vettlinga.

Fyrri greinFjárréttir á Suðurlandi 2014
Næsta greinMyndir: Kyndilberar sunnlenskrar knattspyrnu