Gáfu gasgrill í Birkimörk

Það var skammt stórra högga á milli hjá Lionsklúbbi Hveragerðis þegar kom að styrkveitingum í aprílmánuði.

Þann 25. apríl afhentu félagar Lionsklúbbs Hveragerðis vistheimilinu í Birkimörk fullkomið fjögurra brennara gasgrill ásamt fjórum sólstólum. Af því tilefni var slegið upp hamborgaraveislu og grilluðu Lionsfélagar um 35 hamborgara sem sporðrennt var af mikilli lyst. Að þessu komu fyrir utan Lionsklúbbinn; Grillbúðin, Kjarnafæði, Rúmfatalagerinn og Vogabær. Er þeim kunnað bestu þakkir fyrir.

Þriðjudagsmorguninn 26. apríl var svo 1. og 2. bekk Grunnskólans í Hveragerði afhentar litabækur um brunavarnir, sem og litir. Að því komu Brunavarnir Árnessýslu og er þeim kunnað bestu þakkir fyrir.

Á starfsárinu hafa að auki verið veittir styrkir til Hveragerðisdeildar Rauða Krossins og til Hjálparsveita Skáta í Hveragerði í tilefni 40 ára afmælis þeirra síðastliðið haust.