Gáfu 125 gjafabréf í Sjóðinn góða

Soffía Margrét Sölvadóttir, starfsmaður Bíóhússins, afhenti Anný Ingimarsdóttur, fyrir hönd Sjóðsins góða, gjafabréfin. Ljósmynd/Aðsend

Bíóhúsið Selfossi færði fjölskylduhjálp Rauða krossins 125 gjafabréf í bíó í gær. Bréfin fara í Sjóðinn góða og þaðan til fjölskyldna á Suðurlandi.

„Okkur datt í hug að þetta gæti verið góð viðbót við það sem þau eru að gefa fyrir jólin, að gefa einhverja upplifun í leiðinni. Við hugsuðum þetta þannig að við værum að gefa 25 fjölskyldum bíóferð en Sjóðurinn góði tekur við gjafabréfunum og úthlutar þeim eins og þeim finnst henta. Við erum bara ánægðir með að geta lagt okkar af mörkum fyrir jólin,“ sagði Marinó Geir Lilliendahl, hjá Bíóhúsinu Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinPakkaþjónusta jólasveinanna í Ingólfsfjalli
Næsta greinFjórir Selfyssingar í 20 manna hópi Guðmundar