Gæsluvarðhalds krafist yfir fjórum mönnum

Lögreglustöðin og sýsluskrifstofan á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur farið fram á gæsluvarðhald yfir fjórum sakborningum vegna rannsóknar á meintu manndrápi í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu í gær.

Allir sakborningarnir voru handteknir á vettvangi skömmu eftir komu viðbragðsaðila en grunur vaknaði strax um að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.

Eins og komið hefur fram barst tilkynning til Neyðarlínunnar um meðvitundarlausan mann rétt fyrir klukkan 14:00 í gær.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að hinir grunuðu, ásamt hinum látna, séu allir karlmenn af erlendum uppruna.

Kröfurnar voru teknar fyrir í Héraðsdómi Suðurlands nú fyrir hádegi og er úrskurðar dómara að vænta síðar í dag.

Rannsókn lögreglu miðar að því að upplýsa um atburðarás á vettvangi og með hvaða hætti andlát mannsins bar að. Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Fyrri greinSigurður Ingi endurkjörinn formaður
Næsta greinGrýlupottahlaup 3/2024- Úrslit