Gaddavír stolið á gresjunni

Níu þjófnaðir voru kærðir til lögreglunnar á Suðurlandi í vikunni. Í tveimur tilvikum var um að ræða hnupl í verslunum á Selfossi og í einu tilviki tók maður eldsneyti á bíl á Hellu og hvarf á braut án þess að greiða fyrir.

Brotist var inn í sumarbústað í Svínahlíð við Þingvallavatn og Sogsveg í Grímsnesi og þaðan stolið fartölvu.

Fjórum sjö strengja vírnetsrúllum og tveimur gaddavírsrúllum var stolið þar sem þær voru í vegkanti um 100 metrum frá Skeiðavegamótum.

Ef einhver getur veitt upplýsingar um þessar rúllur þá er hægt að koma þeim á framfæri á sudurland@logreglan.is eða í síma 444 2000.