Gæsluvarðhald yfir útigangsmanni fellt úr gildi

Hæstiréttur ógilti í gær úrskurð Héraðsdóms Suðurlands frá því fyrir helgi um 30 daga gæsluvarðhald yfir manni sem gerði tilraun til að leggja eld að lögreglustöðinni á Selfossi í síðustu viku.

Í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands frá 3. október segir að maðurinn sé langt leiddur af alvarlegri áfengissýki, hann sé útigangsmaður og að kvartað sé yfir honum nærri því daglega. Lögreglan á Selfossi hefur þurft að hafa afskipti af manninum í 124 skipti undanfarna sex mánuði.

Hann sé ítrekað til ama í verslunum og á veitingastöðum bæjarins, hann ráðist á fólk og skemmi eigur þess og þá hafi hann lagt eld að þeim stöðum þaðan sem honum hafi verið úthýst eða „ekki látið að vilja hans“. Lögreglan hefur rannsakað fimm íkveikjumál frá árinu 2009 þar sem maðurinn hefur réttarstöðu sakbornings.

„Rökstuddur grunur leikur á því að fyrir kærða sé nú þannig komið sökum langvarandi áfengisneyslu hans að veruleg hætta sé á því að hann valdi eldsvoða með ófyrirséðum afleiðingum og ber því nauðsyn til að verja aðra fyrir kærða að þessu leyti,“ segir í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands.

Þessu var Hæstiréttur ekki sammála og segir hann að ekki séu færð fram viðhlítandi rök eða gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu að hætta á eldsvoða sé yfirvofandi af völdum mannsins. Að auki verði manninum ekki gert að sæta varðhaldi með vísan til þess að vergangur hans valdi íbúum Selfoss ama og því var gæsluvarðhaldsúrskurðurinn felldur úr gildi.

Fyrri greinGísli Tryggva: Réttindi landsbyggðar stóraukin
Næsta greinHannes sýnir í Sunnlenska sveitamarkaðnum