Gætu tekið við milljón gestum

Umferð ferðamanna jókst mikið í uppsveitum Árnessýslu í sumar og haustmánuðirnir hafa verið góðir, sérstaklega í nágrenni Gullfoss.

Að sögn Svavars Njarðarsonar, eiganda Gullfosskaffis, lætur nærri að umferð ferðamanna hafi aukist um 10% það sem af er ári. Eftir rólegt vor jókst umferðin verulega í sumar. September og októbermánuður voru einnig drjúgir.

Veitingaaðstaðan við Gullfoss hefur verið að stækka undanfarin ár og í byrjun árs var ráðist í 100 fermetra stækkun á anddyri veitingaskálans. Sú stækkun var mjög vel heppnuð að sögn Svavars. Þá er landslagsarkitekt að hanna aðkomu að staðnum en ætlunin er að helluleggja og bæta bílaplön. Einnig reynir mikið á salernisaðstöðu og hefur verið unnið að endurbótum á henni.

Á hverju ári koma á milli 500.000 og 600.000 manns að Gullfossi enda einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Að sögn Svavars stoppa um 15% í Gullfosskaffi en þess má geta að foreldrar hans og bróðir reka hótel þar rétt hjá. Því má með sanni segja að fjölskyldan eigi mikið undir Gullfossi.

,,Ég tel að hér geti verið hægt að taka á móti einni milljón gesta á ári án þess að reyna á svæði. Þetta er stórt svæði og vel hefur verið staðið að göngustígagerð, nú síðast Sigríðastíg sem bætir aðkomuna verulega,” sagði Svavar.

Gullfosskaffi er opið alla daga ársins og þar vinna um tíu manns að meðaltali.