„Gæti orðið okkar Höfði“

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í vikunni að skoða möguleikana á því að sveitarfélagið eignist húseignina Sigtún, fyrrum bústað Egils Thorarensen, kaupfélagsstjóra, en fasteignin hefur verið á söluskrá.

Helgi S. Haraldsson, B-lista, lagði fram þessa tillögu og í greinargerð með henni segir að Sigtún sé glæsilegasta og söguríkasta hús á Selfossi.

„Það er vel staðsett í hjarta Selfossbæjar og gæti gegnt stóru hlutverki í framtíð skipulags miðbæjar Selfoss og verðandi miðbæjargarðs. Húsnæðið gæti orðið okkar Höfði, þar sem saga Selfoss yrði sýnd í munum og myndum, ásamt því að verða staður fyrir minni móttökur og uppákomur á vegum sveitarfélagsins,“ segir í greinargerðinni.

Bæjarráð samþykkti með tveimur atkvæðum að fela framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að ræða við eiganda hússins, án skuldbindinga. Eggert V. Guðmundsson, S-lista, sat hjá.