Fyrstu Sunnlendingar ársins komnir í heiminn

Fyrsta barn ársins á Heilbrigðisstofnun Suðurlands kom í heiminn klukkan 9:43 í morgun, 11. janúar. Það var stór og myndarlegur drengur frá Selfossi.

Foreldrar hans eru Heiða Ösp Kristjánsdóttir og Jóhann Ásgrímur Pálsson. Drengurinn á tvo eldri bræður, Kristján Breka 7 ára og Patrek Brimar 3 ára.

„Settur fæðingardagur var í gær þannig að hann kom nokkurn veginn á áætlun, en við ætluðum ekki að trúa því þegar ljósmóðirin sagði okkur að þetta væri fyrsta barn ársins hér á sjúkrahúsinu,“ sagði Heiða Ösp í samtali við sunnlenska.is.

„Fæðingin gekk hratt og vel, hann kom með hvelli því við komum hingað um klukkan níu í morgun og hann var kominn í heiminn á innan við klukkutíma eftir það, 18 merkur og 54 sentimetrar,“ sagði Heiða Ösp ennfremur, en það var Bóthildur Steinþórsdóttir, ljósmóðir, sem tók á móti fyrsta barni ársins á HSU.

Þessi nýjasti Sunnlendingur er þó ekki fyrsti Sunnlendingur ársins því eftir bestu vitund sunnlenska.is er það drengur í Hveragerði, sonur Hlínar Guðnadóttur og Michaels Hassing. Hann fæddist í Reykjavík kl. 8:05 að morgni 2. janúar og hefur fengið nafnið Guðni Hassing.