Fyrstu skóflustungurnar með góðu millibili

Skóflustungurnar voru teknar með 2 metra samskiptafjarlægð. Á myndinni eru Eyþór H. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar, Sævar Þór Helgason, skólastjóri, Alda Pálsdóttir, formaður fræðslunefndar, Rannveig Eir frá Reir verk, Sigurjón Jóhannsson, húsvörður og Helgi Húbert Sigurjónsson, fulltrúi nemenda. Ljósmynd/Hveragerðibær

Fyrstu skóflustungur að nýrri viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði voru teknar síðasta vetrardag – með góðu millibili vegna tveggja metra reglunnar.

Við sama tilefni var undirritaður verksamningur við Reir verk ehf sem átti lægsta tilboð í verkið, ríflega 390 milljónir króna.

Arkitekt og aðalhönnuður verksins er dr. Maggi Jónsson. Verkfræðihönnun var í höndum Eflu verkfræðistofu og Kára Sveinbjörns Gunnarssonar verkfræðings.  Verkið felur einnig í sér umfangsmiklar lóðaframkvæmdir en lóðin liggur að Lystigarðinum Fossflöt.  Um hönnun lóðar sá Landslag ehf,  Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt.  Hönnunarstjóri var Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur.

Um er að ræða 750 fermetra viðbyggingu á tveimur hæðum sem verður staðsett norðan við núverandi skólabyggingu. Sex kennslustofur eru í viðbyggingunni auk fjölnotarýmis. Verklok eru áætluð í júlí á næsta ári.

Fyrri greinSvipuð velta og í mars í fyrra
Næsta greinEmil Karel og Ragnar Örn áfram í Þór