Fyrstu skóflustungur að gestastofu við Klaustur

Fyrsta skóflustungan að gestastofunni var tekin í júní í fyrra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í gær voru teknar fyrstu skóflustungurnar að nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs við Kirkjubæjarklaustur.

Byggingin mun rísa við svonefndan Sönghól í landi Hæðargarðs, sunnan Skaftár, gegnt byggðinni á Kirkjubæjarklaustri og er byggingarlóðin höfðingleg gjöf til Vatnajökulsþjóðgarðs frá Magnúsi Þorfinnssyni, bónda í Hæðargarði.

Gestastofan verður meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði hans með aðstöðu fyrir upplýsingagjöf, sýningarhald, verslun, kaffihús, skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu, geymslu og tæknirými í kjallara. Byggingin verður 620 m2 á einni hæð auk 145 m2 kjallara eða samtals 765 m2 að flatarmáli. Gert er ráð fyrir að byggingin verði tilbúin í lok árs 2022.

„Þetta er stór áfangi í áframhaldandi uppbyggingu gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Gestastofur eru eins og hlið inn í þjóðgarða. Í þeim er verðmætunum miðlað sem finna má innan þjóðgarðsmarka, veittar haldgóðar upplýsingar og góð ráð um hvernig best megi njóta þeirra svæða sem við höfum tekið frá fyrir komandi kynslóðir. Gestastofan er líka innspýting og aðdráttarafl fyrir samfélagið í Skaftárhreppi og ég óska okkur öllum til hamingju með þennan áfanga.“

Fyrri greinPáll ráðinn skólastjóri í BES
Næsta grein5,4 milljónir króna til sunnlenskra verkefna