Þingmói og Þingbrú verða fyrstu götunöfnin í nýrri íbúðarbyggð við Þingborg í Flóahreppi. Verðlaun fyrir vinningstillögurnar voru veitt á Fjöri um Flóa um helgina.
Alls bárust nítján tillögur um hvora götu í nafnasamkeppni sem haldin var í vor. Vinningshafar í nafnasamkeppninni eru þær Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir og Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir. Sigurbjörg skilaði inn tillögunni Þingmói fyrir götu sem liggur í langri skeifu í byggðinni. Nafnið passar vel enda byggðin umkringd móa og í nafninu felst tenging við Þingborg. Hallfríður Ósk skilaði inn tillögunni Þingbrú og mun stutt gata sem tengir byggðina saman í miðjunni hljóta það nafn og segja má að stutta gatan sé einskonar brú í miðri byggðinni.
Í verðlaun hlutu þær plöntur frá gróðrastöðinni Kjarri, viðurkenningarskjal og glæsilegan vasa frá listakonunni Fanndísi á Brúnastöðum.
Byggðin í hverfinu mun liggja meðfram Volanum, sem liggur austan megin við fyrirhugaða byggð. Gert er ráð fyrir um 60 íbúðum í núverandi skipulagi og verða lóðir í boði fyrir raðhús, parhús og einbýlishús.
TENGDAR FRÉTTIR:
Ný íbúðarbyggð rís við Þingborg
