
Gervigreindarfyrirtækið Menni og Friðheimar í Reykholti í Biskupstungum hafa hafið samstarf sem markar tímamót í þjónustu veitingastaða á Íslandi. Friðheimar verður fyrsti veitingastaður landsins til að innleiða sérhæfðan gervigreindarfulltrúa sem svarar fyrirspurnum og aðstoðar viðskiptavini allan sólarhringinn.
Verkefnið felur í sér að Menni hefur þróað og innleitt spjallmennið Fríðu á vefsíðu Friðheima, sem getur leiðbeint gestum með bókanir, dagskrá og svör við algengum spurningum, allt frá matseðli og opnunartíma til sérhæfðrar þjónustu staðarins. Lausnin gerir viðskiptavinum kleift að fá svör án biðar og óháð opnunartíma.
„Við leggjum alltaf áherslu á að þjónusta viðskiptavini sem best,“ segir Knútur Rafn Ármann, framkvæmdastjóri Friðheima. „Með þessari nýjung tryggjum við að allir fái fljóta og örugga aðstoð þegar þeir þurfa á henni að halda.“
Ánægjulegt að vinna með Friðheimum
Daníel Spanó, framkvæmdastjóri Menni, fagnar samstarfinu við Friðheima. „Okkur hjá Menni finnst sérstaklega ánægjulegt að vinna með Friðheimum sem eru brautryðjendur á sínu sviði. Að þau verði fyrst til að taka gervigreindarþjónustu í notkun í veitingageiranum sýnir framtíðarsýn og vilja til að bæta upplifun gesta með nýjustu tækni,“ segir Daníel.
Menni er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hagnýtingu gervigreindar til að einfalda og bæta þjónustu fyrir fyrirtæki. Fjöldi íslenskra fyrirtækja nýtir sér þjónustu Menni og á meðal þeirra eru Hertz, Europcar, Lava Show, World Class, Lotus Car Rental, Jarðböðin við Mývatn og Hvammsvík Sjóböð. Menni hafa einnig gerst styrktaraðilar Blindrafélagsins og Félags heyrnalausra með gervigreindartækni sinni.
