Fyrsti Sunnlendingurinn er drengur

Fyrsti Sunnlendingurinn á þessu ári er drengur sem kom í heiminn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi kl. 2:49 í nótt.

Drengurinn er fjórða barn foreldranna, Guðrúnar Eddu Hannibalsdóttur og Gísla Jóseps Hreggviðssonar. Áætlaður fæðingardagur var 21. desember en Guðrún Edda segir að sig hafi grunað að barnið kæmi í heiminn í kringum áramótin. „Ég var viss um að hann kæmi á gamlársdag eða nýjársdag en líklega er það skemmtilegra fyrir hann þegar fram líða stundir að hafa fæðst fyrst í janúar frekar en síðast í desember,“ sagði Guðrún Edda í samtali við sunnlenska.is.

Nýjasti Sunnlendingurinn er tæpar 18 merkur, 4.450 gr og 55 sm. Fæðingin gekk mjög vel en eftir að hafa borðað kvöldverð hjá foreldrum Guðrúnar á Flúðum í gærkvöldi óku þau Gísli á Selfoss og voru komin á sjúkrahúsið á Selfossi kl. 22:30. Móður og barni heilsast vel og fjölskyldan er komin heim af sjúkrahúsinu.

„Þetta er mjög skemmtilegt. Ljósmóðirin nefndi það þegar við komum að við ættum ekkert að vera að flýta okkur að þessu því það væri möguleiki á því að þetta yrði fyrsti Íslendingur ársins. Við fengum svo að vita það eftir fæðinguna að rúmum klukkutíma fyrr hefði fæðst drengur á Landspítalanum. Það var reyndar ágætt,“ sagði Gísli Jósep sem kveið því að lenda í sjónvarpsviðtali ef svo hefði farið.

Fyrri greinSigurgeir sæmdur fálkaorðu
Næsta greinGæsirnar þekkja bílinn