Fyrsti Sunnlendingur ársins er Selfyssingur

sunnlenska.is/Soffía Rúna Lúðvíksdóttir

Fyrstu börn ársins 2019 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi komu í heiminn að morgni 7. janúar síðastliðins.

Fyrsti Sunnlendingur ársins er myndarlegur drengur frá Selfossi, sonur Soffíu Rúnu Lúðvíksdóttur. Hann fæddist klukkan 6:15 og var 50,5 sm og tæpar 14 merkur. 

„Settur fæðingardagur var 28. janúar, þannig að hann kom þremur vikum fyrir tímann, en allt gekk eins og í sögu og hann er vær og góður,“ sagði Soffía í samtali við sunnlenska.is. Það var Veronika C. Snædal, ljósmóðir, sem tók á móti drengnum.

Ljósmæðurnar á HSU þurftu að bíða óvenjulega lengi eftir nýársbarninu þetta árið en ekki þurfti að bíða lengi eftir næsta barni því það fæddist rúmum tveimur klukkustundum síðar að morgni 7. janúar.

Litli drengurinn á tvö eldri systkini og á myndinni er hann með stóra bróður sínum, Ísak Loga.

Fyrri greinÁsta Sól með rándýrt sigurmark
Næsta greinHaukarnir sterkari í seinni hálfleik