Fyrsti Sunnlendingur ársins er Rangæingur

Fyrsta barn ársins 2018 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi kom í heiminn klukkan 21:40 í gærkvöldi, 3. janúar, stór og myndarlegur drengur af Rangárvöllum.

Foreldrar hans eru Halldóra Valgerður Steinsdóttir og Björgvin Reynir Helgason. Litli drengurinn er fjórða barn þeirra hjóna en systkini hans eru Ásberg Ævarr 6 ára, Þorbjörg Helga 3 ára og Steinn Skúli 1 árs. Fjölskyldan býr í Lambhaga á Rangárvöllum þar sem Björgvin Reynir er uppalinn.

„Settur fæðingardagur var í dag, 4. janúar, þannig að hann er nokkuð stundvís. Við áttum samt ekki von á því að þetta yrði fyrsti Sunnlendingur ársins,“ sagði Halldóra í samtali við sunnlenska.is.

Fæðingin gekk vel fyrir sig en það var Kristín Gunnarsdóttir, ljósmóðir, sem tók á móti drengnum sem var stór og myndarlegur; 55,5 sm og 19 merkur.

Fyrri greinSundlaug Stokkseyrar lokað tímabundið
Næsta greinStillt upp á D-listann í Hveragerði