Fyrsti Sunnlendingur ársins er Hvergerðingur

Þorsteinn og Eyrún með litlu stúlkuna á fæðingardeildinni á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrsta barn ársins á Heilbrigðisstofnun Suðurlands kom í heiminn síðastliðinn laugardag, þann 4. janúar kl. 23:45.

Það er myndarleg stúlka frá Hveragerði sem er fyrsti Sunnlendingur ársins en foreldrar hennar eru Eyrún Anna Stefánsdóttir og Þorsteinn Óli Brynjarsson. Stúlkan var var 49 sm og rúmar 13 merkur við fæðingu og ljósmóðir var Veronika Carstensdóttir Snædal.

Settur dagur hjá Eyrúnu var 12. janúar þannig að stúlkan kom aðeins fyrr í heiminn en áætlað var. Eyrún sagði í samtali við sunnlenska.is að fæðingin hafi gengið vel og það er gaman að segja frá því að stúlkan fæddist „á heimavelli“ en Eyrún er læknakandidat á sjúkrahúsinu á Selfossi.

„Reyndar stóð alltaf til að fæða í Reykjavík, en Hellisheiðin var lokuð vegna veðurs á laugardaginn, þannig að við fórum á Selfoss í hádeginu. En þetta gekk allt vel og við getum ekki annað en hrósað ljósmæðrunum og aðstöðunni hér á fæðingardeildinni. Manni hefur liðið eins og prinsessu í sængurlegunni,“ segir Eyrún, sem átti ekki von á því að eignast fyrsta Sunnlending ársins.

„Nei, við áttum ekki von á þessu en það er skemmtilegt fyrir hana að fá þessa nafnbót,“ sagði Eyrún að lokum.

Fyrri greinGrímur settur lögreglustjóri
Næsta greinHamarsmenn koma ferskir úr jólafríinu