Nýr þriggja ára samningur milli Hveragerðisbæjar og Hveragerðissóknar var undirritaður í síðustu viku og nær hann yfir samstarf bæjar og kirkju í víðu samhengi.
Meðal þess sem Hveragerðiskirkja leggur til samkvæmt samningnum er öflugt barna- og æskulýðsstarf, barnakór og foreldramorgna yfir vetrartímann. Sértæk verkefni kirkjunnar felast í því að barnakórinn syngur við tendrun jólatrésins í Lystigarðinum á fyrsta sunnudegi í aðventu, guðsþjónustu á Blómstrandi dögum, hugvekju og bæn á 17. júní auk skipulags og utanumhalds um dagskrá fyrir börn og ungmenni á sumardaginn fyrsta. Þá hefur Hveragerðisbær heimild til að nýta safnaðarheimili kirkjunnar til fundahalda og annarra viðburða allt að sex sinnum á ári.
Hveragerðisbær leggur til fasteignagjöld fyrir Hveragerðiskirkju og sinnir umhirðu á lóð kirkjunnar yfir sumartímann. Loks er fjárstyrkur sem nemur 600 þúsund krónum árið 2025 en árin 2026-27 nemur styrkurinn einni milljón króna fyrir hvort ár.
Eyjólfur Kolbeins, formaður sóknarnefndar, sagði við þetta tilefni að samningurinn myndi gjörbreyta stöðunni varðandi barna og æskulýðsstarf næstu árin í þröngri fjárhagsstöðu kirkjunnar.

