Fyrsti hluti breikkunar tilbúinn innan árs – Myndband

Vegagerðin hefur auglýst útboð vegna fyrsta hluta breikkunar Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Biskupstungnabrautar. Verkinu á að vera að fullu lokið 15. september 2019.

Í þessum fyrsta áfanga verður breikkaður 2,5 km kafli milli Gljúfurholtsár og Varmár ásamt gerð nýrra gatnamóta við Vallaveg og Ölfusborgaveg.

Til framkvæmdanna telst einnig gerð nýrra hliðarvega sem tengjast nýjum gatnamótum, annars vegar Ölfusvegar frá Ölfusborgavegi að Hvammsvegi og hins vegar Ásnesvegi frá Vallavegi að Ásnesi. Inni í verkinu er einnig breikkun brúar yfir Varmá og undirgöng austan Varmár fyrir gangandi og ríðandi.

Einnig eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Verkfræðistofan Mannvit hefur gert myndband fyrir Vegagerðina sem sýnir hvernig nýr Suðurlandsvegur milli Selfoss og Hveragerðis mun líta út. Áætlað er að verkinu í heild sinni verði lokið á næstu fjórum árum.

Fyrri greinBæjarstjóri á laugardagsfundi
Næsta greinErna vann til alþjóðlegra verðlauna