Fyrsti heilsustígurinn vígður

Heilsustígurinn við Laugaskarð, 2,67 km löng gönguleið með æfingastöðvum, var formlega vígður við upphaf Blómstrandi daga í Hveragerði í gær.

Þetta er fyrsti heilsustígurinn á landinu og er hann hugsaður til að bæta lýðheilsu almennings og aðgengi ferðamanna að spennandi útivistarmöguleikum með uppsetningu þrek- og æfingastöðva.

Stígurinn tengist sundlauginni í Laugaskarði og á honum er fjöldi æfingastöðva en fleiri munu bætast við eftir áramót.

Hver æfingastöð samanstendur af æfingum sem reynir á mismunandi vöðvahópa annaðhvort vöðvaþol eða -styrk. Æfingarnar henta jafnt þjálfuðum sem og óþjálfuðum einstaklingum en upplýsingaskilti um framkvæmd æfinga eru á hverri æfingastöð.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, rakti forsögu heilsustígsins við vígsluna og sló á létta strengi þegar hún sagði að með tilkomu hans yrðu íbúar Hveragerðis í betra formi en íbúar allra annarra sveitarfélaga á Íslandi.

Það er fyrirtækið Heilsustígar ehf. sem sá um hönnun og ráðgjöf vegna stígsins en auk Hveragerðisbæjar koma Íþróttafélagið Hamar, Landbúnaðarháskóli Íslands, Heilsustofnun NLFÍ, Ölfusborgir og Sveitarfélagið Ölfus að verkinu.

heilsustigur1_110811gk_544866858.jpg
Fyrsti stígurinn Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi, Sigríður Sigmundsdóttir og Pétur Frantzson frá skokkhóp Hamars sem afhjúpuðu fyrsta skiltið og Hermann G. Gunnlaugsson verkefnisstjóri hjá Heilsustígum ehf. sunnlenska.is/Guðmundur Karl