Fyrsti fjallahjólagarðurinn á Íslandi

Fjallahjólagarðurinn í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Á þjóðhátíðardaginn mun Félag fjallahjólara í Ölfusi opna formlega fjallahjólaæfingasvæði í Þorlákshöfn. Er þetta fyrsta alvöru fjallahjólaæfingasvæðið á Íslandi.

„Félagið fékk fyrir um ári síðan styrk frá Sveitarfélaginu Ölfusi til að hefja uppbyggingu fjallahjólaæfingasvæðis í gamalli gryfju í Þorlákshöfn. Gryfjan var áður efnistökusvæði og ruslahaugur og hefur staðið ónotuð árum saman þar til við fengum henni þetta hlutverk,“ segir Hrafnhildur Árnadóttir, formaður Félags fjallahjólara í Ölfusi, í samtali við sunnlenska.is.

„Við fengum jarðveg fluttan á svæðið og verktaka til að hanna og útfæra fjallahjóla-æfingabraut. Nú er fyrsta hluta þessarar uppbyggingar lokið en við stefnum á að stækka æfingasvæðið í skrefum eftir því sem fjármögnun fæst.“

Fjallahjólagarðurinn í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Langaði að fara út að leika án þess að keyra með hjólin
Hrafnhildur segir að hugmyndin hafi kviknað fyrir um þremur árum þegar fjölskyldan fékk áhuga á fjallahjólreiðum.

„Þorlákshöfn er staðsett í mjög sendnu flatlendi og því erfitt að finna svæði til að fara út að leika sér á fjallahjólum nema keyra út fyrir bæinn eða yfir í næstu sveitarfélög. Okkur fannst sárlega vanta að geta bara stokkið á hjólin og farið út að leika okkur án þess að þurfa að keyra með hjólin. Við fjölskyldan fórum gjarnan niður í þessa gryfju til að leika okkur að gera æfingar á fjallahjólunum og fórum þá að velta fyrir okkur þeim möguleikum sem svæðið bauð upp á,“ segir Hrafnhildur.

Í framhaldinu ákvað hún að stofna félagsskap fjallahjólara í Ölfusi á Facebook og kanna áhuga fólks á þessum möguleika.

„Í kjölfarið sendi ég erindi til bæjaryfirvalda og óskaði eftir að félagsskapurinn fengi afnot af svæðinu til fjallahjólaæfinga og uppbyggingar fjallahjólabrautar. Sveitarfélagið tók mjög vel í hugmyndina og ákvað strax að veita okkur styrk til að hefja framkvæmdirnar og hefur veitt okkur ómetanlega aðstoð með allt sem við höfum þurft til að klára framkvæmdina,“ segir Hrafnhildur en Félag fjallahjólara í Ölfusi er félagsskapur undir merkjum Ungmennafélagsins Þórs og eru félagsmenn um sjötíu talsins.

Hrafnhildur Árnadóttir, formaður Félags fjallahjólara í Ölfusi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppbygging sem krefst sérþekkingar
Að sögn Hrafnhildar hefur undirbúningur gengið mjög vel þrátt fyrir að fara fremur hægt af stað í byrjun. „Svæðið þurfti ekki mikinn undirbúning annan en þann að flytja þurfti töluvert af jarðvegi á svæðið til að móta braut. Við vorum svo heppin að fá aðgang að frábærum jarðvegi í næsta nágrenni við gryfjuna sem hentar einstaklega vel í uppbyggingu hjólabrauta og byrjuðum að flytja hann yfir í gryfjuna í október í fyrra. Í apríl síðastliðnum hófust svo framkvæmdir við uppbyggingu brautarinnar. Uppbygging svona brauta krefst sérþekkingar ef vel á að takast en við vorum svo heppin að fá einn reynslumesta mann á landinu til að hanna og byggja brautina fyrir okkur, hann Magne Kvam hjá Icebike Adventures en hann hefur meðal annars séð um uppbyggingu fjallahjólastíga í Skálafelli og á Hengilsvæðinu.“

„Núna er framkvæmdum við fyrsta áfanga lokið en markmið okkar er að stækka brautina í skrefum eftir því sem fjármagn fæst til framkvæmdarinnar. Við stefnum á að halda áfram að safna jarðvegi og vonumst til að geta hafið framkvæmdir við næsta hluta strax í haust eða næsta vor ef okkur tekst að safna nægum jarðvegi og fjármagni.“

Fjallahjólagarðurinn í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir alla aldurshópa
Sem fyrr segir opnar garðurinn formlega á 17. júní, nánar tiltekið klukkan 15:00.

„Fólki býðst að prófa brautina og við stefnum á að bjóða gestum upp á pylsur og drykki á staðnum. Æfingasvæðið er ætlað öllum fjallahjólurum á öllum getustigum og á öllum aldri. Þess má geta að þetta er eina alvöru ”bike-park” á Íslandi enn sem komið er, svo við erum mjög montin af því hvernig þetta hefur tekist til,“ segir Hrafnhildur að lokum.

Fjallahjólagarðurinn í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinEgill afhjúpaður í dag
Næsta greinGul viðvörun að kvöldi þjóðhátíðardagsins