Fyrsti ART leikskólinn á Íslandi

Leikskólinn að Laugalandi er fyrsti leikskólinn á Íslandi sem fær ART vottun. ART stendur fyrir Aggression Replacement Training.

Það er fastmótað, uppeldisfræðilegt þjálfunarform sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja ofbeldi og kenna leiðir til að leysa samskipta-, tilfinninga- og hegðunarvanda. Í ART er unnið með þrjá meginþætti, félagsfærni, sjálfsstjórn og siðferðisvitund.

Fyrr í febrúar var opið hús í leikskólanum og útskrifuðust sex kennarar í leikskólanum þá sem ART þjálfarar og nú hafa allir starfsmenn leikskólans lokið ART námskeiði.

Bjarni Bjarnason verkefnisstjóri og ART þjálfari kom og afhenti starfsfólki viðurkenningu og leikskólanum vottunina. Margir góðir gestir komu og ávörpuðu samkomuna í tilefni þessarar gleðistundar. Elstu börnin sögðu gestum hvað þau höfðu lært í ART, sungu ART-lagið og fóru í leik. Krakkarnir bökuðu bollur og foreldraráð leikskólans bauð upp á tertu og afhenti starfsfólki litla gjöf sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf.

Fyrri greinKristinn Þór bikarmeistari í 800m hlaupi
Næsta greinNemendur sýndu kennurum óvæntan stuðning