Fyrsti áfangi nýrrar Hamarshallar boðinn út á næstu dögum

Tölvugerð mynd af nýrri Hamarshöll. Mynd/Alark arkitektar

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á fundi sínum í gær að setja 1. áfanga nýrrar Hamarshallar í alútboð. Stefnt er að því að útboðið verði auglýst á næstu dögum, tilboð opnuð í lok janúar og samningur undirritaður mánuði síðar.

Fyrsti áfangi í uppbyggingu nýrrar Hamarshallar er ný yfirbygging reist á steyptum grunni eldri Hamarshallar og nýtt anddyri við norðurhlið hússins. Dúkveggur verður settur upp til að afmarka fótboltahúsið frá óinnréttaðri fjölnota íþróttaaðstöðu og þjónusturýmum. Markmiðið er að fótboltasalur verði afhentur í september 2023 til notkunar og áfangi eitt verði fullbúinn í byrjun desember 2023.

Í tilkynningu frá Hveragerðisbæ segir að meirihluti bæjarstjórnar hafi haft samráð við Íþróttafélagið Hamar um fyrirliggjandi tillögur að framtíðaruppbyggingu og áfangaskiptingu og er samhljómur með íþróttahreyfingunni um næstu skref um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Síðari áfangar í uppbyggingu Hamarshallarinnar verða byggðir upp eftir því hvernig íbúafjölgun og byggð þróast í bæjarfélaginu á næstu árum.

Ný Hamarshöll kynning

Fyrri greinHamar lyfti sér upp í 2. sætið
Næsta greinHæsta jólaskreyting landsins?