Fyrsta útkallið á nýjum björgunarbát

Við björgunaraðgerðir á Stormi-Breka sl. laugardag var nýr björgunarbátur Björgunarsveitarinnar Bjargar á Eyrarbakka notaður í fyrsta sinn.

Björgunarsveitirnar í Þorlákshöfn og Eyrarbakka voru kallaðar út á fjórða tímanum á laugardag er leki kom að Stormi-Breka suður af Herdísarvík.

Eyrbekkingarnir héldu af stað á nýjum Atlantic 75 björgunarbát en hann er einn af þeim sex björgunarbátum sem nýverið voru keyptir til landsins og er þetta fyrsta útkallið á hann.

Einnig var Björgunarskipið Oddur V. Gíslason frá Grindavík kallað út. Eftir að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hafði komið dælu um borð í Storm-Breka fylgdi Atlantic 75 báturinn frá Björgu skipinu til hafnar ásamt lóðsbátnum Ölveri frá Þorlákshöfn. Bátarnir til hafnar í Þorlákshöfn um kl. 18.

Atlantic 75 björgunarbátarnir leysa af hólmi Atlantic 21 báta sem notaðir hafa verið hér við land síðan 1998. Helsti munurinn á Atlantic 21 og Atlantic 75 er tankur frammi í bátnum sem hægt er að fylla með sjó. Báturinn verður þ.a.l. framþyngri og betri ef sigla þarf mót báru í miklum vindi.

Gunnar Ingi Friðriksson var á hafnarbakkanum í Þorlákshöfn þegar bátarnir komu til hafnar og tók myndirnar sem eru í albúminu hér til hægri.

Attached files

Fyrri greinFramkvæmdir við Suðurlandsveg hefjast fljótlega
Næsta greinBirtíngur heldur norður