Fyrsta undirstaðan steypt í Vaðölduveri

Ljósmynd/Landsvirkjun

Þann 17. september síðastliðinn var fyrsta undirstaðan undir vindmyllu í Vaðölduveri steypt. Alls verða 28 vindmyllur reistar á svæðinu.

„Þetta er stór og mikilvægur áfangi í uppbyggingu Vaðölduvers. Fyrsta undirstaðan markar upphafið að því að sjá vindmyllurnar rísa og framleiða græna orku til framtíðar. Ég vil hrósa ÍSTAK og öllu teyminu á verkstað fyrir faglegt og vandað starf – þetta gekk afar vel og er góð byrjun á þessum hluta verkefnisins,“ segir Elín Hallgrímsdóttir, staðarverkfræðingur Vaðölduvers hjá Landsvirkjun.

Ákveðið var að byrja á að steypa undirstöðu fyrir vindmyllu númer 13. Þrátt fyrir númerið gekk steypan afar vel og tók um 14 klukkustundir að ljúka verkinu. Í undirstöðuna fóru um 70 tonn af stáli og rúmlega 400 rúmmetrar af steypu. Öll steypa í undirstöðurnar er framleidd á staðnum.

Stefnt er að því að fyrstu fjórtán vindmyllurnar verði reistar og komnar í rekstur fyrir haustið 2026. Reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.

Um 70 tonn af stáli fóru í undirstöðuna. Ljósmynd/Landsvirkjun
Fyrri greinHákon skoraði 17 í miklum markaleik
Næsta greinSelfoss úr leik þrátt fyrir frábæran sigur